Ágúst Atlason | mánudagur 4. apríl 2011

Benni Sig og vestfirskar perlur

Það hefur vakið athygli að Benni Sig og vestfirskar perlur eru skráð til leiks á Aldrei fór ég suður 2011! Við ákváðum að "feisviðtala" Benna og negla á hann nokkrum vel völdum spurningum um hann og þetta atriði sem hann ætlar að færa okkur.

 

Hver er Benni Sig?

Benni Sig er að ég held bara ósköp venjulegur strákur, hrikalega vel giftur og er svo heppinn að eiga 3. börn með sömu yndislegu konunni. Ég lít fyrst og fremst á mig sem skemmtikraft og nýt þess að skemmta fólki, er svolítið ofvirkur en held ég kunni að nýta mér það til góðs. Ég vil láta gott af mér leiða og reyni að vera góður við alla, geri engan mannamun á fólki hvort sem það er 5 ára eða 95, ef þú fattar hvað ég á við, tala af virðingu við alla.


Nú varst þú kosinn Vestfirðingur ársins, hvernig lagðist það í þig?

Heyrðu, Vestfirðingur ársins, eru ekki allir vestfirðingar ársins??


Hefur þú lengi verið viðloðandi tónlist?
Ég hef verið í tónlist alla ævi held ég, kunni textana hans Hauks Morthens utan að þegar ég var 7 eða 8 ára. Tónlist er stór hluti af lífi okkar fjölskyldu og syngjum við oft saman.


Hvað er Benni og vestfirskar perlur, getur þú aðeins talað um það verkefni? Hverjir spila með þér og lagaval?

Benni Sig og Vestfirskar perlur er dæmi sem einhverjir af AFÉS genginu átti hugmyndina að og báðu mig um að stýra þessu og er ég afskaplega stoltur að fá að taka þátt. Það er meiningin með þessu atriði að taka ofan fyrir gömlum perlum, þar á meðal BG og Ingibjörg, Facon og Kan og valdi ég mér einvalalið með mér í þetta, hljómsveitin mín, Xpress, ásamt öðrum snillingum. Ingibjörg í BG og Ingibjörg mun syngja með okkur og Svanhildur Garðars og svo munu bæði Pétur Bjarnason úr Facon og Maggi Hávarðar úr Kan koma og spila með okkur....við munum bara telja í. Ég mun syngja 3 lög, Ég er frjáls, Ertu í ræktinni og Vestfjarðaóð og lofa ég því að við munum trylla lýðinn og mögulega lyfta þakinu af húsinu

Smá lokaorð?

Ég vil að lokum þakka þeim sem áttu hugmyndina af AFÉS og þeim sem gera þetta kleift en ég held að þeim verði seint fullþakkað. Ég var á tónleikum á Græna hattinum s.l fimmtudagskvöld með Mugison og ég var ekkert smá stoltur að vera vestfirðingur því þessi drengur er besti "one man on stage" í heimi og hann býr í Súðavík....það er eitthvað hrikalega töff við það og svo er hann bara einn af fólkinu, svoleiðis á það að vera.

Ég verð að segja að lokum að af öllu því fólki sem ég hef séð dansa á þeim hundruðum balla sem ég hef spilað á að þá stendur einn dansari uppúr og er það hann Pétur Magnússon, vona að hann komi inn á sviðið með mér í síðasta laginu okkar Vestfjarðaóð og sýni fólkinu hvernig á að gera þetta.....þessi maður er snillingur!

 

Ef þig langar að forvitnast meira um Benna og vestfirsku perlunar, kíktu þá á þetta!