Ágúst Atlason | þriðjudagur 19. apríl 2011

Hlýrabolir, límmiðar á bíla og póstkortagleði

Fyrir nokkrum árum voru gerðir Aldrei fór ég suður hlýrabolir sem hafa lifað góðu lífi og sér maður þeim bregða fyrir, öðru hverju hér og þar í samfélaginu. Það er einfaldlega ekkert meira rokk en að vera í hvítum hlýrabol á sveittum rokktónleikum! Þar af leiðandi ákváðum við að koma aftur með þessa boli bæði með karla- og kvensniði. Það sem við vorum einnig að hugsa var það að venjulegir T-bolir henta alls ekki öllum konum því þær eru með aðrar línur en karlpeningurinn og var því ættu allir að geta fundið sér Aldrei bol sem passar og er ekki bara notaður sem náttbolur.

 

Við ákváðum síðan að gera límmiða á bíla svo allir heimamenn og þeir sem koma keyrandi að sunnan geti merkt bílana sína hátíðinni. Þeir eru ekki merktir ári svo þeir geta verið á bílnum næstu árin ef viljinn er fyrir hendi. Hægt er að líma þá beint á bílana eða á gluggana á bílnum og fyrir þá sem eiga ekki bíl að þá eru til ýmsir aðrir staðir sem hægt er að líma límmiðana á eins og t.d. á fartölvuna, stígvélin, hjólið, á gluggann heima eða jafnvel á skella miða á hægri rasskinnina þegar fjörið hefur náð hámarki eina nóttina.

 

Í ár bjóðum við upp á Aldrei fór ég suður póstkort og er því nú tilvalið tækifæri til að senda póstkort til vinanna sem eru fastir fyrir sunnan eða erlendis vegna próflærdóms. Þessi kort eru einnig frábær sem fermingarkort, jólakort og afmæliskort svo um að gera að kaupa nokkur stykki til að eiga á lager. Það eru tvær gerðir af póstkortunum, önnur myndin er orðin ansi vel þekkt enda búin að prýða þessa síðu síðan hún opnaði og kemur upphaflega frá þjóðbúningadagatalinu sem var gefið út fyrir jólin. Hin myndin var tekin á hátíðinni í fyrra og sýnir vel stemminguna á hátíðinni. Ágúst Atlason tók báðar myndirnar og breytti Gunnar Bjarni Guðmundsson þeim í póstkort.

 

Allar þessar vörur verða til sölu í Bókhlöðunni Ísafirði og svo einnig seldar á hátíðinni um páskana. Hlýrabolina er einnig hægt að panta í gegnum netið á sölusíðu Aldrei. Nú erum við búin að kynna allar vörur sem verða til sölu á hátíðinni en við eigum eitt tromp eftir í hendinni. Domm domm domm dommmmm…

 

Sólskinsbörnin í söluvarningliðinu :D