Snorri Örn Rafnsson | þriðjudagur 4. apríl 2017

KRAFT GALLINN ER TÍSKUTREND 2017

Það má segja ýmislegt um Aldrei fór ég suður hátíðina og alla þá sem að henni standa, en það verður ekki tekið af forsprökkunum að þau eru afar tískumeðvituð og ávallt óaðfinnanlega stælæseruð.
Nú hefur tísku- og trendgreiningardeild AFÉS gefið út, í kjölfar ítarlegra rannsókna, að heitasta flík páskanna 2017 - raunar ársins eins og það leggur sig - er gamli góði Kraft gallinn.

Af þessu tilefni hefur kaupfélagsdeild hátíðarinnar hafið sölu á afar takmörkuðu upplagi af ALDREI KRAFT-GÖLLUM. Hér má sjá nokkrar tískulegar myndir af tónlistarfólkinu Hildi Kristínu og Kristjáni Eldjárn spóka sig í göllunum, en þau koma einmitt bæði fram á hátíðinni í ár (Hildur Kristín með Hildi, Kristján með Kött Grá Pjé). Eins og sést á ljósmyndunum verða þau án alls vafa fær í flestan sjó þegar að hátíð kemur.

ALDREI KRAFT-GALLINN er ekki bara tískuleg flík, heldur dobblar hann sem einskonar AFÉS survival kit (sjálfsbjargarbúnaður) fyrir alla helgina, heildræn lausn á flestum vafa- og vandamálum er kunna að koma upp yfir páskahelgina.

ALDREI KRAFT-GALLINN mun kosta 25.900 kr. og sala á gallanum stendur framyfir föstudaginn næsta, 07. apríl.

Við hvetjum áhugasama til þess að leggja inn pöntun sem fyrst, en það má gera með því að senda póst á rokkstjori@aldrei.is, en í honum þarf að koma fram bæði nafn tilvonandi gallahafa ásamt stærð galla sem óskað er eftir S-XL í boði.

Einungis örfáir gallar verða framleiddir.