| miðvikudagur 13. apríl 2011

Katy á leið á Afés

Aldrei fór ég suður er fyrir löngu orðin landsfræg hátíð og verður vinsælli á hverju ári.  Það eru ekki bara íslendingar sem sækja hátíðina heldur líka ævintýraþyrstir útlendingar. Það hlýtur að vera meiriháttar að koma í svona samfélag eins og Ísafjörð og upplifa svona æðislega hátíð þar sem allir eru vinir í sullandi bullandi stuði.

Ég rakst á komment á síðunni okkar í síðustu viku frá ungri stúlku sem var að óska eftir gistiplássi og ákvað að spyrja hana nokkurra spurninga.

 

Hvað heitiru, hvaðan ertu og hvað ertu að gera á Íslandi?

Ég heiti Katy Hoffman og er frá Þýskalandi og kom til Íslands fyrir 3 vikum. Ég mun dvelja hér í rúmlega þrjá mánuði á meðan ég stunda starfsnám við Háskólann á Akureyri.

 

Hvar fréttiru af AFÉS?

Ég hitti strák á Húsavík fyrir tveim vikum og hann sagði mér frá hátíðinni og hversu æðisleg stemmning væri að vera á henni. Sjálf spila ég á gítar og ELSKA tónlist og þá sérstaklega live tónlist, hún er best.

Ég var að hlusta á íslenska tónlist í fluginu á leiðinni til Íslands og líkaði það mjög vel en vinur minn tók mig svo með að sjá Mugison spila á Akureyri um daginn og ég varð strax aðdáandi. Hann er frábær á sviði og einstakur gítarleikari. Ég varð svo heilluð að ég ákvað að ég yrði bara að fara á hátíðina.

Ég þekki reyndar engan á Ísafirði eða nágrenni og því er það svolítið basl að finna gistingu með svona stuttum fyrirvara. En ég get ekki sleppt því að koma! :-D  Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast nýju fólki og nýrri tónlist í leiðinni. Mig langar líka til að sjá sem mest af landinu á meðan ég er hérna, og þótti þá tilvalið að skella mér á Vestfirði á íslenska tónlistarhátíð í fyrsta sinn!

Ég var reyndar búin að hugsa að mæta bara til Ísafjarðar, án þess að vera með öruggan gististað og láta það bara reddast, en það er kannski aðeins of mikið ævintýri? :-D

 

Eru einhver sérstök bönd sem þú ert spenntust fyrir að sjá á hátíðinni?

Nei, ég er bara spennt fyrir öllu og væntingar mínar eru miklar. Ég er búin að lesa rosalega mikið um hátíðina og allt hljómar svo ferkst og heimilislegt. Allir að hjálpast að og gefa vinnuna sína. Heimafólk í bland við þekktar hljómsveitir og allir í góðu skapi! Þetta verður æði!

 

Ég rakst á sænskan strák á Facebook sem sá skilaboðin mín þar og við ákváðum að fara saman á hátíðina. Við erum búin að hringja á öll gistiheimilin á Ísafirði, og auðvitað er allt upptekið. Við erum fátækir námsmenn sem langar að upplifa stemmninguna á Afés og hitta fólkið á Ísafirði. Þannig að ef það er einhver sem vill hýsa tvo hressa ferðalanga, endilega hafið samband. Það fer mjög lítið fyrir okkur og svefnpokunum okkar ;)

Við hlökkum til að hitta alla á Ísafirði og óskum ykkur öllum gleðilegrar rokkhátíðar!

 

Rokk og ról, auf wiedersehen!

 

Með þessum orðum kveð ég Katy og vona svo sannarlega að hún láti sjá sig fyrir vestan um páskana, því það má enginn missa af AFÉS!