Ágúst Atlason | miðvikudagur 2. nóvember 2016

Kristján Freyr nýr rokkstjóri Aldrei fór ég suður

Tónlistarmaðurinn og Hnífsdælingurinn Kristján Freyr Halldórsson hefur verið ráðinn rokkstjóri Aldrei fór ég suður hátíðarinnar og tekur hann við keflinu af Birnu Jónasdóttur. Birna hefur rokkstýrt síðustu þremur rokkhátíðum með bravúr en hún hélt til útlanda í vikunni og náði að klukka einn helsta samstarfsfélaga sinn Kristján Frey rétt fyrir brottför. Birna mun þó ekki yfirgefa stjórn hátíðarinnar og mun starfa við undirbúning næsta árs. Kristján Freyr er alls ekki ókunnur hátíðinni en hann hefur verið í innsta hring næstum frá byrjun hátíðarinnar.
 
 
Kristján og Birna - Mynd: Brynjar Gunnarsson
Kristján og Birna 
 
Örn Elías Guðmundsson upphafsmaður Aldrei fór ég suður og jafnframt stjórnarformaður hátíðarinnar er ánægður með ráðninguna, „Kristján Freyr eða Kriss Rokk eins og við köllum hann var efst á óskalistanum hjá okkur í rokkstjóraembættið í ár. Hefðum við auglýst stöðuna hefði auglýsingin hljómað svona;  „Okkur hjá Aldrei vantar manneskju sem kann að halda stöðugum takti, getur lesið í sal eins og veislustjóri og þekkir persónulega allt tónlistarfólk á Íslandi” og þá hefði bara einn maður komið til greina: Kristján Freyr”.
 
Kristján Freyr starfar í Reykjavík sem hugmynda- og textasmiður á auglýsingastofu og er tónlistarmaður í hjáverkum. Hann hefur komið fram á hátíðinni með hljómsveitum á borð við Reykjavík!, Prins Póló og Dr. Gunna. „Ég hef auðvitað unnið í þessum góða hópi nánast frá fyrstu hátíð og kalla glaður alla þessa einstaklinga vini mína. Ég tek keikur við keflinu eingöngu vegna þess að ég er með frábært fólk í kringum mig og svo veit ég ég að bæjarbúar eru ávallt viðbúnir að leggja hendur á plóg. Ég vona að engin breyting verði á því, vona að ég sé ekki illa liðinn í mínum gamla bæ. Ætli ég skuldi nokkuð í J.R. Vídeó?”
 
Aldrei fór ég suður fer fram sem aldrei fyrr um páskana á Ísafirði en páskahátíðin verður um miðjan aprílmánuð á næsta ári. Hátíðin verður haldin í annað skipti í skemmu rækjuverksmiðjunnar Kampa við Ásgeirsgötu. „Við kunnum Jóni Guðbjartssyni og Alberti Haraldssyni og þeirra fólki í Kampa miklar þakkir fyrir afnot af húsinu annað árið í röð. Kampi hefur staðið þétt við bakið á hátíðinni í mörg ár og samstarfið verið afar gott,“ segir Kristján Freyr. Bókanir eru þegar komnar vel á veg og má vænta fregna af dagskránni á næstu vikum.
 
 
Myndir: Hörður Sveinsson & Brynjar Gunnarsson