Aldrei fór ég suður | fimmtudagur 8. apríl 2010

Takk og bless!

Jæja, þá er hátíðin búin og þrifum og frágangi lokið að mestu leyti. Hátíðin hökti af stað klukkan 18 á föstudag og stóð í okkar huga fram yfir helgi. Það er gamall og góður íslenskur siður að kenna veðrinu um það sem aflaga fer og verða dagskrárhringl og aðrir hnökrar hiklaust skrifaðir á þann reikning og skiptir þá engu þótt eitthvað hafi verið okkur sjálfum að kenna. 

Of langt mál er að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg, en þó ber að minnast á okkar stærstu bakhjarla; Menningarráð Vestfjarða, Flugfélag Íslands, Kraum og Landsbankann á Ísafirði, og KNH-verktaka sem lögðu á sig mikla vinnu til að við kæmumst í hús. Fjarðarneti þökkum við fyrir alls kyns reddingar, Snerpu og Vodafone fyrir streymið, Ali fyrir kjötið, Vífilfelli fyrir ölið og Samskipum fyrir flutninginn. Þá þökkum við líka tónlistarfólkinu okkar, bæjarköllum, einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum stofnunum í bænum sem aðstoðuðu okkur. Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem mættu á tónleikana. Enginn veit hversu mörg þið voruð, en þið voruð mörg.