Snorri Örn Rafnsson | laugardagur 31. mars 2018

MUGISON KEMUR TIL BJARGAR!

Af óviðráðanlegum orsökum þurfti Kuldaboli að afboða komu sína til okkar, en hann ætlaði að opna laugardaginn með electro tónlist sinni.
Okkur þykir það voða leiðinlegt en svona getur alltaf gerst og við fáum hann bara til að spila fyrir okkur seinna.

En hver á þá að stíga fyrstur á svið og þar með redda málunum all svakalega?

Váleg tíðindi fyrir Mugison aðdáendur sem ætluðu að nýta sér fjarveru hans til að hreinlega mæta ekki á Aldrei í ár.
Nú er það fyrir bí því strákurinn ætlar að redda málunum af sinni alkunnu snilld og barasta spila klukkan 19:30 í skemmunni í dag!

Allir að mæta og fá sér rækjuborgara og Mugison.

Snorri Örn Rafnsson | föstudagur 30. mars 2018

Atería opnar hátíðina 2018

Aldrei hefur núna í all nokkur ár verið í stórgóðu samstarfi við Músíktilraunir og hafa sigurvegarar þeirra fengið fastan sess í dagskránni okkar.

Í ár er engin breyting á því, og þó að úrslitin hafi ekki legið fyrir fyrr en um síðustu helgi þá munu stelpurnar í Ateríu mæta hingað á Ísafjörð galvaskar og vera fyrstar hljómsveita á sviðið.

Þessar þrjár ungu stúlkur eiga framtíðina svo sannarlega fyrir sér í tónlistinni og við hjá Aldrei erum stolt af að fá þær á sviðið okkar í skemmunni góðu.

Þær munu byrja að spila klukkan 19:30 eftir góða upphitun frá DJ Jóni Páli.

 

Allir að mæta í blíðunni og fá sér drykk og mat í kroppinn og hlusta á frábæra tónlist!

Djöfulli er gaman!

Snorri Örn Rafnsson | föstudagur 30. mars 2018

Dags

Jæja gott fólk. Það fer að bresta á með geggjaðri tónlist og frábærri stemningu!
Hér gefur að líta dagskrána í heild sinni í öllu sínu veldi og það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Bæði uppi á sviði sem og í búðinni okkar og veitingasölunni.
Og ekki má gleyma að smakka páskaglöggið okkar, en það er fáanlegt áfengt sem og óáfengt og svo fyrir þá alla hörðustu er til Háskaglögg!

Sjáumst í geggjuðu stuði í Kampa skemmuni í kvöld.

Ásgeir Helgi Þrastarson | föstudagur 9. mars 2018

Blaðamannafundur 2018!

Síðastliðinn fimmtudag var haldinn blaðamannafundur þar sem endanleg dagskrá hátíðarinnar var kynnt ásamt varningnum sem er í boði í ár.

Boðið var uppá bakkelsi frá Gamla Bakaríinu á Ísafirði og Hrafnkell Hugi (söngvarinn í Rythmatík!) mætti með páskaglöggblönduna sína sem verður til á hátíðinni. Pétur Markan klæddi sig í AFÉS boli, hettupeysu, kraftgalla, húfu og var módel dagsins. Í lok fundarins mættu forsvarsmenn helstu bakhjarla og fengu sér sjálflýsandi tattoo saman. Hversu töff er það?

Deginum lauk ekki hér því blaðamennirnir fóru í smá óvissuferð yfir í Súðavík þar sem þau heimsóttu Sætt & Salt súkkulaðiverksmiðjuna og fengu besta súkkulaði landsins, þvílík veisla fyrir bragðlaukana! Förinni var síðan heitið aftur á Ísafjörð í mat á Húsinu og labbað í gegnum bæinn til að heimsækja Harðfiskverkun Finnboga. Þar fengu blaðamenn að smakka á alvöru ísfirsku sælgæti.

Í staðin fyrir að lesa og ímynda ykkur allt þetta, þá komu Gústi og Geiri frá Gústi Productions með í ferðina og tóku myndir ásamt myndbandi, sem sjá má fyrir neðan. Njótið!

Kristján Freyr Halldórsson | miðvikudagur 7. mars 2018

LISTI HINNA FRÁBÆRU

Þá er dagskrá tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður 2018 orðin klár og þvílík hátíð! Þetta er í 15. sinn sem boðið er uppá vel blandaða tónlistarveislu með gæðahráefnum úr ýmsum áttum og það í tvo daga yfir páskahátíðina. Ísafjörður og nágrenni hefur rækilega komið sér á kortið sem páskaáfangastaður landsmanna og oft á tíðum einnig erlendra gesta. Í byrjun febrúar voru fyrstu 10 atriðin kynnt og þar voru engir aukvisar á ferð. Það var því morgunljóst að tónninn var gefinn allhressilega fyrir stórkostlega tónleikaveislu enn eitt árið á Ísafirði um páskana. 


Meira
Kristján Freyr Halldórsson | fimmtudagur 1. febrúar 2018

FYRSTU ATRIÐI TILKYNNT Á ALDREI FÓR ÉG SUÐUR 2018

Þar kom loks að því að við heyrðum einhver tíðindi af Aldrei fór ég suður 2018. Og engin smá tíðindi! Það er hér með kunngjört hvaða 10 hljómsveitir af 14 munu prýða hátíð ársins.

 

Aldrei fór ég suður er nú haldin í fimmtánda sinn (pælið í því!) og verður eins og áður á Ísafirði um páskana. Aðaldagskráin verður eins og síðustu 2 ár til húsa í Kampa-skemmunni á horni Ásgeirsgötu og Aldrei fór ég suðurgötu og stendur yfir í tvo daga, föstudaginn langa 30. mars og laugardaginn 31. mars. Þar að auki verður boðið upp á ýmsa hliðardagskrá frá miðvikudegi til sunnudags víðsvegar um Skutulsfjörð sem og nágrannabyggðarlög.

 

En þá af tíðindum dagsins! Fyrstu atriðin sem kynnt eru til sögunnar eru eftirfarandi: 


Meira