Andri Pétur Þrastarson | fimmtudagur 17. mars 2011

Aldrei fór ég suður 2003 bis 2011

Hvað hugsum við um þegar við heyrum þessi orð, Aldrei fór ég suður?  Lagið með Bubba? varla... eitthvern sveitung sem hefur aldrei farið úr sínum vestlæga firði? Frekar, en ekki alveg.  Hvað með: Mestu og best stemmdu rokkhátíð á vora ástkæra föðurlandi og þó víða væri leitað?  BINGÓ!

Í huga Mugisons og meðferðarmanna hófust meldingar um að halda þessa merku hátíð árið 2003, og það sem byrjaði sem lítill snjókúla er nú orðinn jafnoki vatnajökuls hvað mikilfengleika varðar, og virðist ekki vera að stoppa.  Hátíðin hefur átt sína hápunkta, og að sjálfsögðu sína lágpunkta líka(lesist sem Blonde redhead).  En stemmingin sem hefur einkennt hátíðina hefur aldrei vikið fyrir fílúpúkanum alræmda sem á það til að poppa upp þegar gamnið stendur sem hæst. 

Ég hef tekið þátt í þessari hátíð frá fyrstu tíð, bæði sem áhorfandi og þáttakandi,  þegar ég var fyrst viðstaddur fannst mér reyndar candy floss-ið mun áhugaverðari heldur en tónlistaratriðin, en það hefur sem betur fer vaxið af mér.  Hver einasta hátíð hefur skilið eftir sig sælar minningar, hvort sem það er að taka undir með söng Appollo, dansa við Orphic Oxtra, fara í matarpásu þegar Ingó spilar(lol jk) eða fara í sleik með undirspili frá Sudden Weather Change þá er alltaf eitthvað brakandi ferskt á hverri hátíð.

Í seinni tíð bættust við málþing í Edinborg, forleikur á krúsinni og varð það ekki til að minnka stuðið.  Enda er AFÉS fyrst og fremst stuðhátíð, stuð og kærleikshátíð.  Tveir dagar af friði og tónlist, já ég sagði það, Aldrei fór ég suður er okkar Woodstock.

Með hækkandi sól og straumi aðkomumanna kemur ný hátíð, meiri tónlist, meira stuð og minni fýla.  Engin efnahagsleg lægð, díoxín mengun eða kjarnorkuslys á eftir að megna að koma í veg fyrir það að Ísafjörður um páskanna 2011 verður THE pláss til að vera á!

Aldrei fór ég suður | föstudagur 11. febrúar 2011

Fréttir að vestan

Forsprakkar Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðarinnar héldu opinn borgarafund í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á fimmtudagskvöldið. Tilefnið var að ræða um framtíð hátíðarinnar og einnig að kveða niður þær sögusagnir um að hátíðin hafi sungið sitt síðasta. Hið sanna er að hátíðin og þeir sem að henni koma virðast í sullandi bullandi stuði. Örn Elías Guðmundsson einn af pöbbum hátíðarinnar fór yfir stöðu mála og tíundaði hvernig málum hafi verið háttað hingað til. Mæting var prýðileg og fundargestir í fantastuði, allir sem mættu fengu sleikipinna og skapaðist því afar góð stemning.Jón Þór Þorleifson var kynntur til leiks fyrir bæjarbúum sem nýr rokkstjóri en hann var keyptur frá Sundfélaginu Styrmi á dögunum, þegar leikmannaglugginn opnaði í lok janúar. Jón Þór ræddi um framkvæmd hátíðarinnar í ár og nokkrar nýungar, hann tilkynnti um staðsetningu hátíðarinnar í ár en öðlingarnir í verktakafyrirtækinu KNH hafa lýst yfir vilja til að hýsa hátíðina nú þriðja árið í röð. Lagði Jón Þór til að að öllum starfsmönnum KNH yrði gefið svokallað "high-five" þegar þeim er mætt úti á götu.


Meira
Aldrei fór ég suður | þriðjudagur 8. febrúar 2011

Stuðmælingar íbúa í Edinborgarhúsinu!

Stuðmælingar íbúa í Edinborgarhúsinu! - Opinn borgarafundur vegna Aldrei fór ég suður! Fimmtudaginn 10. febrúar kl. 20.00 munu aðstandendur tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og velunnarar hátíðarinnar blása til opins borgarafundar í sal Edinborgarhússins á Ísafirði. Aðal umræðuefni fundarins verður Rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, framtíð hennar og framþróun. Farið verður yfir síðustu hátíðir, hvað hefur verið gert rétt og hvað ekki og viðraðar verða hugmyndir um hvert hátíðin getur þróast.

Af forsvarsmönnum hátíðarinnar hafa heyrst fregnir af hugsanlegri þreytu en þær fregnir eru stórlega ýktar og ljóst að menn hafa fengið einhvers konar endurnýjun lífdaga í kjölfar stuðsamkomulags bæjaryfirvalda og vestfirðinga allra. Í ár hafa íbúar Ísafjarðarbæjar og nágrannabyggðarlaga nefnilega lýst yfir vilja til að bretta upp ermar og aðstoða við hátiðina og er því markmiðið að safna saman í góðan og öflugan hóp vaskra meyja og sveina til að stuðla að öflugri hátið í ár. 


Meira
Aldrei fór ég suður | mánudagur 31. janúar 2011

Gleðilegt nýtt rokk ár!

Nú líður að nýrri rokkhátíð og undirbúningur kominn á fullt. Staðfest hefur verið að hátíðin verður haldin 22. & 23. apríl, föstudag og laugardag fyrir páskadag að vanda. Búast má við miklu rokki eins og undanfarin ár en eins og áður skiptir það nú mestu málið að allir séu í bullandi sullandi stuði alla páskahelgina!

Svona til þess að koma okkur í rétta gírinn fyrir hátíðina þá mælir rokkstjórinn með því að facebook notendur kíki á þennan link hér fyrir neðan. Þarna er hægt að smella merki hátíðarinnar á prófíl-myndina sína þar og sýna öllum það að þú ætlir að vera í sullandi bullandi stuði á Aldrei fór ég suður!

Aldrei fór ég suður | fimmtudagur 8. apríl 2010

Takk og bless!

Jæja, þá er hátíðin búin og þrifum og frágangi lokið að mestu leyti. Hátíðin hökti af stað klukkan 18 á föstudag og stóð í okkar huga fram yfir helgi. Það er gamall og góður íslenskur siður að kenna veðrinu um það sem aflaga fer og verða dagskrárhringl og aðrir hnökrar hiklaust skrifaðir á þann reikning og skiptir þá engu þótt eitthvað hafi verið okkur sjálfum að kenna. 

Of langt mál er að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg, en þó ber að minnast á okkar stærstu bakhjarla; Menningarráð Vestfjarða, Flugfélag Íslands, Kraum og Landsbankann á Ísafirði, og KNH-verktaka sem lögðu á sig mikla vinnu til að við kæmumst í hús. Fjarðarneti þökkum við fyrir alls kyns reddingar, Snerpu og Vodafone fyrir streymið, Ali fyrir kjötið, Vífilfelli fyrir ölið og Samskipum fyrir flutninginn. Þá þökkum við líka tónlistarfólkinu okkar, bæjarköllum, einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum stofnunum í bænum sem aðstoðuðu okkur. Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem mættu á tónleikana. Enginn veit hversu mörg þið voruð, en þið voruð mörg.

Aldrei fór ég suður | laugardagur 3. apríl 2010

Hátíð í bæ!

Við þökkum öllum sem mættu á hátíðina í gær, þetta gekk alveg frábærlega í alla staði og stuðið var í algleymi. Það var nánast troðfullt nær allan tímann frá því fyrstu tónar svifu um skemmuna og allt til enda dagskrár. 

Þetta var rosalega gaman og við ættum eimhvern tímann að endurtaka leikinn. Hvers vegna ekki bara í dag? Jú, við skulum slá bara til! Við byrum nefnilega á stuðinu aftur núna kl. 16.00 og Jesús Kristur hvað við eigum nú gott í vændum. Það er tuttugu frábærlega skemmtileg atriði framundan. 

Svona verður þetta: 

 • Klikkhausarnir 
 • Tom Matthews band 
 • Ugly Alex 
 • Jitney boys 
 • Geirfuglarnir 
 • Stjörnuryk 
 • Mc Ísaksen 
 • Kortér í þrjú! 
 • Biogen 
 • Sigríður Thorlacius 
 • Yxna 
 • Biggi Bix 
 • Rúnar Þór 
 • Hjaltalín 
 • Orphic Oxtra 
 • Sólinn frá Sandgerði 
 • URMULL 
 • Dikta 
 • BlazRoca, Sesar A og Dj Kocoon 
 • Nine elevens