Aldrei fór ég suður | mánudagur 31. janúar 2011

Gleðilegt nýtt rokk ár!

Nú líður að nýrri rokkhátíð og undirbúningur kominn á fullt. Staðfest hefur verið að hátíðin verður haldin 22. & 23. apríl, föstudag og laugardag fyrir páskadag að vanda. Búast má við miklu rokki eins og undanfarin ár en eins og áður skiptir það nú mestu málið að allir séu í bullandi sullandi stuði alla páskahelgina!

Svona til þess að koma okkur í rétta gírinn fyrir hátíðina þá mælir rokkstjórinn með því að facebook notendur kíki á þennan link hér fyrir neðan. Þarna er hægt að smella merki hátíðarinnar á prófíl-myndina sína þar og sýna öllum það að þú ætlir að vera í sullandi bullandi stuði á Aldrei fór ég suður!

Aldrei fór ég suður | fimmtudagur 8. apríl 2010

Takk og bless!

Jæja, þá er hátíðin búin og þrifum og frágangi lokið að mestu leyti. Hátíðin hökti af stað klukkan 18 á föstudag og stóð í okkar huga fram yfir helgi. Það er gamall og góður íslenskur siður að kenna veðrinu um það sem aflaga fer og verða dagskrárhringl og aðrir hnökrar hiklaust skrifaðir á þann reikning og skiptir þá engu þótt eitthvað hafi verið okkur sjálfum að kenna. 

Of langt mál er að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg, en þó ber að minnast á okkar stærstu bakhjarla; Menningarráð Vestfjarða, Flugfélag Íslands, Kraum og Landsbankann á Ísafirði, og KNH-verktaka sem lögðu á sig mikla vinnu til að við kæmumst í hús. Fjarðarneti þökkum við fyrir alls kyns reddingar, Snerpu og Vodafone fyrir streymið, Ali fyrir kjötið, Vífilfelli fyrir ölið og Samskipum fyrir flutninginn. Þá þökkum við líka tónlistarfólkinu okkar, bæjarköllum, einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum stofnunum í bænum sem aðstoðuðu okkur. Að lokum viljum við þakka öllum þeim sem mættu á tónleikana. Enginn veit hversu mörg þið voruð, en þið voruð mörg.

Aldrei fór ég suður | laugardagur 3. apríl 2010

Hátíð í bæ!

Við þökkum öllum sem mættu á hátíðina í gær, þetta gekk alveg frábærlega í alla staði og stuðið var í algleymi. Það var nánast troðfullt nær allan tímann frá því fyrstu tónar svifu um skemmuna og allt til enda dagskrár. 

Þetta var rosalega gaman og við ættum eimhvern tímann að endurtaka leikinn. Hvers vegna ekki bara í dag? Jú, við skulum slá bara til! Við byrum nefnilega á stuðinu aftur núna kl. 16.00 og Jesús Kristur hvað við eigum nú gott í vændum. Það er tuttugu frábærlega skemmtileg atriði framundan. 

Svona verður þetta: 

 • Klikkhausarnir 
 • Tom Matthews band 
 • Ugly Alex 
 • Jitney boys 
 • Geirfuglarnir 
 • Stjörnuryk 
 • Mc Ísaksen 
 • Kortér í þrjú! 
 • Biogen 
 • Sigríður Thorlacius 
 • Yxna 
 • Biggi Bix 
 • Rúnar Þór 
 • Hjaltalín 
 • Orphic Oxtra 
 • Sólinn frá Sandgerði 
 • URMULL 
 • Dikta 
 • BlazRoca, Sesar A og Dj Kocoon 
 • Nine elevens
Aldrei fór ég suður | föstudagur 2. apríl 2010

Gleðilega hátíð!

Veðurguðirnir (ekki hans Ingós) hafa strítt okkur örlítið fram eftir degi og reynt að leggja stein í götu okkar. Full flugvél poppara fór til að mynda aldrei í loftið síðla dags í dag og setur strik í reikninginn. Þess vegna hefur okkur ekki tekist að birta það plan sem þó var tilbúið fyrir daginn í dag. 

Pollapönk sem átti að hefja leik komust því miður ekki á staðinn og ekki heldur Jitney boys frá Noregi. Það eru þó tveir bílar með poppurum á leiðinni og vonumst við til að fá hjálma og Ingó og veðurguðina í hús eftir kvöldmat. Hljómsveitin Reykjavík! voru fyrir tilviljun á staðnum og munu hugsanlega hlaupa í skarðið með nokkur hress lög. 
Nú lítur þetta þá þannig út að röðin verði svona: 

 

 • Baunirnar 
 • Óminnishegrar 
 • Rúnar Þórisson 
 • Mugison 
 • Lára 
 • Morðingjarnir 
 • Bróðir Svartúlfs 
 • Ólöf Arnalds 
 • Hudson Wayne 
 • Reykjavík! 
 • hjálmar 
 • Ingó og veðurguðirnir 
 • Skúli Þórðar 
 • Bloodgroup
Aldrei fór ég suður | föstudagur 2. apríl 2010

Aldrei fór ég suður hefst í dag!

Þá er hátíðin gengin í garð og bresta mun á með Rokkhátíð alþýðunnar kl. 18.00 síðdegis. Þjófstartað var í gær með miklu fyrirpartíi þar sem Mið-Ísland, Morðingjar og Reykjavík! skemmtu troðfullri Krúsinni og vilja aðstandendur þakka öllum sem mættu og sömuleiðis blaðinu Reykjavík Grapevine sem buðu uppá dagskrána í samvinnu við okkur hjá Aldrei fór ég suður.

Kl. 13.00 í dag hefjast í Edinborgarhúsinu pallborðsumræður um tónlist og tónlistariðnaðinn þar sem margir af þeim poppurum sem koma munu fram á hátíðinni ræða þann heim vítt og breitt. Allir eru velkomnir á þessa dagskrá og mun hún eins og áður segir hefjast uppúr kl. 13.00 í Bryggjusal Edinbogarhússins.

Kl. 18.00 hefjast svo herlegheitin í KNH skemmunni og þeir sem munu koma fram í dag eru eftirfarandi:
Baunirnar, Pollapönk, Ingó og veðurguðirnir, Jitney boys, Óminnishegrar, Rúnar Þóris, Bróðir Svartúlfs, Skúli Þórðarson, Morðingjarnir, Mugison, Hudson Wayne, hjálmar og Bloodgroup.

Athugið að þetta er ekki endanleg röð á atriðunum, hún verður þó birt og staðfest í dag, en taka má það fram að hátíðin hefst á barnvænum nótum því Pollapönkarar stíga fyrstir á stokk. Við hvetjum því barnafólk sem og alla aðra að mæta við setningu Aldrei fór ég suður 2010 í skemmunni kl. 18.00 í dag!

Aldrei fór ég suður | miðvikudagur 31. mars 2010

Allt fram streymir

Allt fram streymir endalaust. Snerpa og Vodafone ætla að standa að streymi frá tónleikunum þetta árið svo gestir um víða veröld geti fylgst vel og rækilega með. Fyrirtækin eiga þakkir skildar fyrir þetta framtak sem verður til þess að menn þurfa ekki að missa af nema rétt um mínútu af tónleikunum ef þeir þurfa að bregða sér heim til að skipta um föt eða fá sér að borða.