Aldrei fór ég suður | föstudagur 2. apríl 2010

Aldrei fór ég suður hefst í dag!

Þá er hátíðin gengin í garð og bresta mun á með Rokkhátíð alþýðunnar kl. 18.00 síðdegis. Þjófstartað var í gær með miklu fyrirpartíi þar sem Mið-Ísland, Morðingjar og Reykjavík! skemmtu troðfullri Krúsinni og vilja aðstandendur þakka öllum sem mættu og sömuleiðis blaðinu Reykjavík Grapevine sem buðu uppá dagskrána í samvinnu við okkur hjá Aldrei fór ég suður.

Kl. 13.00 í dag hefjast í Edinborgarhúsinu pallborðsumræður um tónlist og tónlistariðnaðinn þar sem margir af þeim poppurum sem koma munu fram á hátíðinni ræða þann heim vítt og breitt. Allir eru velkomnir á þessa dagskrá og mun hún eins og áður segir hefjast uppúr kl. 13.00 í Bryggjusal Edinbogarhússins.

Kl. 18.00 hefjast svo herlegheitin í KNH skemmunni og þeir sem munu koma fram í dag eru eftirfarandi:
Baunirnar, Pollapönk, Ingó og veðurguðirnir, Jitney boys, Óminnishegrar, Rúnar Þóris, Bróðir Svartúlfs, Skúli Þórðarson, Morðingjarnir, Mugison, Hudson Wayne, hjálmar og Bloodgroup.

Athugið að þetta er ekki endanleg röð á atriðunum, hún verður þó birt og staðfest í dag, en taka má það fram að hátíðin hefst á barnvænum nótum því Pollapönkarar stíga fyrstir á stokk. Við hvetjum því barnafólk sem og alla aðra að mæta við setningu Aldrei fór ég suður 2010 í skemmunni kl. 18.00 í dag!

Aldrei fór ég suður | miðvikudagur 31. mars 2010

Allt fram streymir

Allt fram streymir endalaust. Snerpa og Vodafone ætla að standa að streymi frá tónleikunum þetta árið svo gestir um víða veröld geti fylgst vel og rækilega með. Fyrirtækin eiga þakkir skildar fyrir þetta framtak sem verður til þess að menn þurfa ekki að missa af nema rétt um mínútu af tónleikunum ef þeir þurfa að bregða sér heim til að skipta um föt eða fá sér að borða.

Aldrei fór ég suður | þriðjudagur 30. mars 2010

Landsbankinn á Ísafirði bregst vel við

Þau ánægjulegu tíðindi voru að berast rétt í þessu að Landsbankinn á Ísafirði ætlar að vera einn bakhjarla Aldrei fór ég suður 2010. Eru þetta miklar gleðifréttir þar sem hátíð sem þessi er alfarið rekið á styrktarfé, veitinga- og minjagripasölu, og velvilja ýmissa fyrirtækja og einstaklinga. 

Kunnum við sem að hátíðinni standa Landsbankanum á Ísafirði hinar bestu þakkir fyrir stuðninginn og einstaklega snör viðbrögð þegar leitað var til hans korteri fyrir gigg.

Aldrei fór ég suður | föstudagur 26. mars 2010

Mál málanna

Jæja, þá er komið á hreint hvar hátíðin verður í ár. KNH verktakar hafa verið svo almennilegir að lána okkur aftur húsnæði sitt á Grænagarði og verðum við þeim ævinlega þakklátir. 

Húsnæðið hentar einkar vel og má segja með góðum vilja að það sé miðsvæðis á Ísafirði, þ.e.a.s. mitt á milli miðbæjar og Holtahverfis. Húsið hefur verið stuðmælt og mælist það 1.200 Travolt sem er vel yfir lágmarksgildi fyrir hátíð sem þessa.

 

Aldrei fór ég suður | fimmtudagur 25. mars 2010

Hver er hvað?

Nú hafa verið sett inn nokkur orð um þá listamenn sem koma fram á Aldrei fór ég suður. Ef einhver kannast ekkert við listamennina sem koma fram er hægt að fræðast örlítið um þá undir „Aldrei fór ég suður“ flipanum hér til uppi.

Aldrei fór ég suður | þriðjudagur 23. mars 2010

Listinn

Jæja, hér kemur loksins listi yfir þá sem koma fram á Aldrei fór ég suður 2010. Mjög fljótlega verður hægt að finna lágmarks upplýsingar um hvert atriði hér á síðunni.

  • Stjörnuryk 
  • MC Isaksen 
  • Klikkhausarnir 
  • Hjálmar 
  • Rúnar Þóris 
  • Mugison

Meira