Kristján Freyr Halldórsson | fimmtudagur 6. apríl 2017

ALDREI FÓR ÉG SUÐUR BÝÐUR UPPÁ VISTVÆNAR UMBÚÐIR

Aldrei fór ég suður gerði á dögunum samning við prentsmiðjuna Odda um notkun umbúða sem eingöngu eru úr náttúrulegum hráefnum og flokkast því einfaldlega með öðrum lífrænum úrgangi. Umbúðirnar sem kallast Enviropack eru framleiddar úr sterkju sem fellur til við framleiðslu á sykri og maís og eru að fullu niðurbrjótanlegar og vistvænar.

Hátíðarhaldarar munu því bjóða uppá vistvænar umbúðir fyrir allar þær veitingar sem boðið verður uppá á hátíðarsvæðinu og flokkast því umbúðirnar með öðru lífrænu sorpi.

Á meðfylgjandi mynd má sjá rokkstjórann Kristján Frey handsala samstarfið við fulltrúa Odda, strandamanninn Karl F. Thorarensen.

Aðstandendur Aldrei fór ég suður eru verulega glaðir með þetta samstarf og stoltir af því að taka nokkur græn skref, t.a.m. í kjölfar hins góða framtaks Plastpokalausra Vestfjarða sem kynnt var í fyrra.

Við þetta má bæta að veitingaaðstaða á hátíðarsvæðinu mun verða á nýjum stað, inni í húsi við hlið tónleikaskemmunnar og vonast því Aldrei fór ég suður hópurinn að hátíðargestir kunni vel að meta stórbætta aðstöðu og styðji vel við bakið á hátíðinni með kaupum á veitingum og varningi. 

GÓÐA SKEMMTUN!

 

Snorri Örn Rafnsson | þriðjudagur 4. apríl 2017

KRAFT GALLINN ER TÍSKUTREND 2017

Það má segja ýmislegt um Aldrei fór ég suður hátíðina og alla þá sem að henni standa, en það verður ekki tekið af forsprökkunum að þau eru afar tískumeðvituð og ávallt óaðfinnanlega stælæseruð.
Nú hefur tísku- og trendgreiningardeild AFÉS gefið út, í kjölfar ítarlegra rannsókna, að heitasta flík páskanna 2017 - raunar ársins eins og það leggur sig - er gamli góði Kraft gallinn.





Af þessu tilefni hefur kaupfélagsdeild hátíðarinnar hafið sölu á afar takmörkuðu upplagi af ALDREI KRAFT-GÖLLUM. Hér má sjá nokkrar tískulegar myndir af tónlistarfólkinu Hildi Kristínu og Kristjáni Eldjárn spóka sig í göllunum, en þau koma einmitt bæði fram á hátíðinni í ár (Hildur Kristín með Hildi, Kristján með Kött Grá Pjé). Eins og sést á ljósmyndunum verða þau án alls vafa fær í flestan sjó þegar að hátíð kemur.

ALDREI KRAFT-GALLINN er ekki bara tískuleg flík, heldur dobblar hann sem einskonar AFÉS survival kit (sjálfsbjargarbúnaður) fyrir alla helgina, heildræn lausn á flestum vafa- og vandamálum er kunna að koma upp yfir páskahelgina.

ALDREI KRAFT-GALLINN mun kosta 25.900 kr. og sala á gallanum stendur framyfir föstudaginn næsta, 07. apríl.

Við hvetjum áhugasama til þess að leggja inn pöntun sem fyrst, en það má gera með því að senda póst á rokkstjori@aldrei.is, en í honum þarf að koma fram bæði nafn tilvonandi gallahafa ásamt stærð galla sem óskað er eftir S-XL í boði.

Einungis örfáir gallar verða framleiddir.

Snorri Örn Rafnsson | laugardagur 1. apríl 2017

Úrslitakvöld Músíktilrauna er rétt ný ó hafið

Þegar þetta er ritað eru nákvæmlega sextán mínútur í að úrslitakvöld Músíktilrauna 2017 hefjast, eða klukkan 17:00 í dag 1. apríl.
Eins og allir vita þá mun sú hljómsveit sem sigrar í kvöld spila á Aldrei Fór Ég Suður 2017 með pompi og pragt.

Úrslitin eru í beinni á Rás 2 að venju, auk þess sem það er hægt að horfa á herlegheitin á RÚV 2.

Við hér hjá Aldrei óskum öllum þáttakendum sem og aðstandendum góðs gengis í kvöld og hlökkum til að fá loks að sjá hvaða hljómsveit mun fylla í tóma skarðið í prógraminu í ár.

 

Ágúst Atlason | fimmtudagur 16. mars 2017

Blaðamannafundur, Vigur og Aldrei fór ég Suðurgata!

Í gær var inkað inn samstarfið við styrktaraðila Aldrei fór ég suður á Ísafjarðarflugvelli, eins og gert hefur verið síðustu ár. Þessir aðilar eru okkar helstu styrktaraðilar og eru þeir Orkubú Vestfjarða, Samskip, 66 Norður, Flugfélagið, Orkusalan og Landsbankinn. Þá komu með fluginu blaðamenn að sunnan ásamt Rokkstjóra vorum. Boðið var upp á kringlur og kókoslengjur úr Gamla og tóku til máls Örn Elías Mugison, Kristján Freyr rokkstjóri og hún Þórdís Sif, en hún og maður hennar fluttust hingað vestur búferlum eftir að hafa unnið ferð vestur á Aldrei fór ég suður með bílaleigubíl og gistingu fyrir nokkrum árum. Eftir fundinn var haldið í Vigur með bát BoreaAdventures og sá svo Ásgeir hjá Vesturferðum um ferðina. Í Vigur tók svo Salvar Baldursson á móti okkur og leiddu okkur um eyjuna með hinum ýmsu fróðleiksmolum. Endaði svo ferðin í fjósinu hjá þeim hjónum, en það er uppsett sem veitingastaður í dag. Þar var borin fram dýrindis lambasteik og kökur og kaffi á eftir. Eftir þessa frábæru ferð var haldið aftur á Ísafjörð til að endurnefna götu eina hér í bæ, en einn af okkar dyggustu sjálfboðaliðum, hann Ásgeir Andri rótari kom með þá uppástungu að gatan sem skemman stendur við yrði endurskírð og bætt við fyrir framan Aldrei fór ég. Og því heitir gatan í dag Aldrei fór ég Suðurgata og var það afhjúpað af bæjarstjóra. 

Góður dagur og gott start, takk allir sem gerðu þetta að veruleika!

Hérna má sjá myndaalbúm frá deginum!

Kristján Freyr Halldórsson | þriðjudagur 7. mars 2017

DAGSKRÁIN ER KOMIN!

Kæru vinir,

hér kemur loks í ljós hvaða leiftrandi frábæra listafólk mun troða upp á stóra sviðinu á Aldrei fór ég suður 2017, sem eins og lög gera ráð fyrir - fer fram um páskana á Ísafirði. Stóru dagarnir í rokkskemmunni verða 14. - 15. apríl en það verður nóg um að vera í kringum þessa daga á hinum ýmsu sviðum og pöllum Ísafjarðarbæjar.

Aldrei fór ég suður heldur áfram að fylgja þeirri sérstöðu að blanda saman straumum og stefnum í tónlist, konum og köllum, gömlum sem ungum, frægum og efnilegum og allt þar á milli. Þarna sjáum við indípopp, blús, pönk, lúðrastuð, þungarokk, gleðipopp, rapp, köntrí, dramatík og dans. Allir fá eitthvað, enginn fær ekkert, einn fær ekki allt.

Í þessu myndbandi sjáum við hvernig Ísfirðingar og nærsveitungar boða stuðið um páskana. Þarna má sjá glitta í Úlf veitingamann í Hamraborg, Hr. Hammond sjálfan, Lísbet málara og snilling, Gísla bæjarstjóra Ísafjarðabæjar, Gulla Diskó, Úlf á hjólabretti, hressa unglinga, Pétur Markan módel og sveitarstjóra Súðavíkurhrepps, Svövu Rán leikskólastjóra á Stuðeyri ásamt börnum sínum, Óskar frá Örnu í Bolungarvík, hressan einhyrning, Pétur Magg hinn óheflaða kynni AFÉS og síðast en ekki síst Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Við gætum ekki verið stoltari af íbúum Ísafjarðarbæjar og nágrönnum okkar og hlökkum mikið til að taka á móti gestum vestur í stuðið um páskana!

Haukur S. Magnússon | mánudagur 20. febrúar 2017

Alþýðan þarf sitt rokk

Brestur brátt á með hátíð

-Næg bílastæði fyrir alla!

-Óheftur og ókeypis aðgangur alþýðu manna!

-Frábær félagsskapur!

-Fölskvalaus gleði!

-Ýkt góð tónlist (bæði titrandi tæknó og rífandi rokkenróll o.m. fl.)!

-Eftirsóknarverður varningur!

-Skrum, fals, fúsk og auglýsingamennska í lágmarki!

-Stuð, fjör, frændsemi og allskonar gott í hámarki!

-Plokkfiskur!

-Súpa!

-Rækjur!

-O.m.fl.!


Meira