Aldrei trivia

Sturlaðar staðreyndir um fólkið á bakvið tjöldin!

Heimildarmynd um Aldrei fór ég suður verður sýnd á RÚV kl. 20:05 í kvöld. Þar er farið yfir sögu hátíðarinnar sem fagnaði tuttugu ára afmæli á árinu 2024. Í myndinni er skyggnst bak við tjöldin og áhorfendum gefið tækifæri til að kynnast fólkinu sem stendur að hátíðinni. Aldrei.is mælir hiklaust með því að allir Aldrei-velunnarar horfi á myndina en um dagskrárgerð sáu Magnús Atli Magnússon og Matthías Már Magnússon. Til að leyfa fólki að kynnast aðstandendum Aldrei enn betur tók vefurinn saman nokkrar skemmtilegar staðreyndir um nokkra úr hópnum sem skipuleggur hátíðina.

Vissir þú:

Eygló JónsdóttirEygló Jónsdóttir, sem sér um söluvarning Aldrei, var í fyrstu hljómsveitinni til að taka þátt í Músíktilraunum AF ÖLLUM? Hún spilaði á gítar í einni af fyrstu kvennasveitum landsins, Sokkabandinu, frá Ísafirði. Ekki bara tók Sokkabandið þátt í fyrstu Músiktilraununum sem haldnar voru heldur voru þær líka fyrstar á svið.

Tinna ÓlafsdóttirTinna Ólafsdóttir, sem er alt-muligt-manneskja hjá Aldrei, var eitt sinn fréttaritari hjá BBC. Hún spilaði líka á fiðlu á annarri Aldrei-hátíðinni með harð-rokk-sveitinni 9/11s frá Ísafirði.

Matthildur Helgadóttir JónudóttirMatthildur Helgadóttir Jónudóttir stóð fyrir óvenjulegustu fegurðaramkeppni sem haldin hefur verið og vakti heimsathygli þegar hún fór fram í Hnífsdal 2007. Og enn meiri athygli þegar heimildamynd um keppnina var sýnd víða um veröld. Einu kröfurnar fyrir því að taka þátt í keppninni var að keppendur urðu að vera komnir af barnsaldri og vera sem upprunalegastir. Það taldist keppendum til tekna ef þeir höfðu hrukkur, slit, aukakíló, skalla eða voru við aldur. Í kjölfarið hélt Matta ræðu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York á árlegri kvennaráðstefnu. Þar talaði hún um Óbeislaða fegurð og hvernig beita má háðsádeilu í jafnréttisbaráttunni. Matthildur hlaut í Aldrei-hópnum viðurnefnið Matta Monný fyrir að búa til peninga og taka skurk í peningamálum sem gjaldkeri í samstarfi við þrjá rokkstjóra.

Harpa HenrysdóttirHarpa Henrysdóttir, drottning mathallarinnar, hefur spilað yfir á annan tug skipta á Aldrei - þar af í eitt sinn þar sem hún spilaði kinnbeinsbrotin á trompet! Hún hafði brotnað viku fyrir hátíðina og gat ekki skilið sveitina eftir trompetlausa – þar sem hinir tveir trompetleikararnir voru ekki í bænum. Hún sló þó ekkert af og spilaði meðal annars Smoke on the Water með Deep Purple. Harpa hefur staðið vaktina í Mathöll hátíðarinnar frá 2023 en fyrirboði þess var að hún smurði samlokur á allra fyrstu hátíðinni í fjáröflunarskyni fyrir skátana.

Snorri Örn RafnssonSnorri Örn Rafnsson á óstaðfest heimsmet í óhöppum á mánudögum. Hann hefur sjálfur ekki tölu á því hversu oft hann hefur lent í mánudagsóhöppum en meðal þeirra er velta á flutningabíl og að fá kjötkrók í GEGNUM hendina á sér. „Ég var að keyra vagni inn í reykofn – þetta var í SS í jólavertíðinni og ég var einn í húsinu um hánótt. En það fer ekki betur en svo að ég dett með einn fótinn í gegn um grindina í gólfinu – og sveifla hendinni til að grípa í eitthvað – og þá fer tómur ketkrókur í gegnum framhandlegginn á mér og ég hangi hálfpartinn á því með fótinn næstum því ofan í brennandi birkinu. Ég var svoleiðis í töluverðan tíma, en svo kom einhver því hurðin á skápnum var opin og reykur fór um allt hús og setti eitthvað í gang,“ svarar Snorri þegar hann er spurður að því hvernig í ósköpunum hann fór að þessu.

Kristján Freyr HalldórssonKristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri, er fyrrum bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar. Hann var í Fönklistanum sem var skipaður ungmennum í Menntaskólanum á Ísafirði sem buðu sig fram við sveitarstjórnarkosningarnar á Ísafirði undir lok síðustu aldar. Fönklistinn kom, sá og sigraði, fékk tæp 20% atkvæða, tvo menn kjörna í bæjarstjórn og eitt eftirminnilegasta kosningaloforð þeirra var innflutningur á elgum til Ísafjarðar.

Birna JónasdóttirBirna Jónasdóttir, fyrrum rokkstjóri, er safnari sem safnar að sér allskyns hæfni sem hún svo nýtir ekki. Sem dæmi er hún með rútupróf, smáskipa -og vélavarða- réttindi og búin með smíðanám (ekki sveinspróf samt). Þá er hún líka lærður gönguleiðsögumaður og hefur ferðast til allra heimsálfa nema einnar.

Ómar HelgasonÓmar Helgason á allt á milli himins og jarðar. Erfitt er að sjá hvernig hægt hefði verið að halda hátíðina öll þessi ár án Ómars og hans ítarlega lagers af alls kyns tækjum og tólum. Vantar stingsög eða borð undir varning? Ómar á það pottþétt til! Og meira til. Enda er hans persónulega mottó: „Það er betra að eiga en vanta.“