Ertu að koma í fyrsta sinn á Aldrei?

Hér eru nokkur góð ráð fyrir Aldrei-byrjendur.

Í fyrsta lagi – ekki gleyma góða skapinu heima. Mjög mikilvægt vegarnesti á hátíðina er sólskinsbrosið og stemmarinn. Umburðarlyndið er líka kærkomið þar sem oft getur verið talsvert um troðning í mannþvögunni.

Í öðru lagi klæðið ykkur eftir aðstæðum. Það er ekki bara biluð stemmning og mannfjöldi inni í skemmunni heldur líka fyrir utan. Gott er að hafa í huga að það getur verið kalt úti en mjög hlýtt inni í þvögunni. Dansskórnir eru best geymdir heima og betra að vera í lopapeysu en glimmergallanum. Ekki þarf þó að örvænta ef eitthvað gleymist því hægt er að kaupa Aldrei-varning til styrktar hátíðinni eins og húfur og peysur sem eru bæði hlý og töff. Það hjálpar einnig hátíðinni þar sem enginn er aðgangseyririnn.

Best er að mæta sem allra fyrst. Mathöllin opnar kl. 19 báða dagana.

Langbest er að rölta í skemmuna – og njóta þess hversu fallegur bær Ísafjörður er. Skemman er aðeins um tíu mínútna fjarlægð frá miðbænum ef gengið er rösklega. Þá er hægt að koma við á Insta-stoppistöð á höfninni rétt við menningarhúsið Edinborg og smella af sér og sínum mynd í Sjóarabát sem sérstaklega hefur verið settur upp í tengslum við hátíðina.

Hafa þarf í huga að hátíðin er fyrir alla aldurshópa – sýnum því virðingu og rokkum saman í sátt og samlyndi.


Páskar fyrir vestan

Páskarnir fyrir vestan eru ekki bara rokk og ról (þó okkur finnist það augljóslega vera aðalskemmtunin). Tékkið til dæmis á Skíðavikunni á Ísafirði og annarri fjölbreyttri menningar- og skemmtidagskrá sem er í boði alla páskana.

Á paskar.is finnið þið upplýsingar um allt sem er í gangi.


Spurt og svarað

Hvar í ósköpunum er Aldrei haldið?

Góð spurning!
Hátíðin er haldin á Ísafirði, í skemmu sem rækjuverksmiðjan Kampi leyfir okkur að nota. Hér er staðsetningin á korti.

Hvernig kemst ég vestur og hvar á ég að gista?

Mikilvæg spurning!
Ef þið eruð ekki kunnug staðháttum mælum við með því að fara inn á westfjords.is til að kynna ykkur mögulega fararmáta, gistingu sem er í boði, veitingastaði og afþreyingu á svæðinu.

Hvað í ósköpunum kostar inn á Aldrei í ár?

Frábær spurning!
Það hefur aldrei kostað neitt inn á Aldrei fór ég suður, og það breytist ekkert í ár. Það er alveg algerlega ókeypis.

Hvernig getið þið þá haldið Aldrei? Eruð þið göldrótt?

Stórkostleg spurning!
Nei, við erum alveg laus við að vera göldrótt. Við erum hinsvegar studd duglega af ótal fyrirtækjum í bænum og víðar, ásamt því að Ísafjarðarbær styður vel við bakið á okkur. Svo seljum við alls konar á staðnum.

Hvað ef við verðum svöng eða þyrst á Aldrei í ár?

Mjög vel orðuð tvíþætt spurning!
Það er mathöll og bar í skemmunni. Hátíðin er líka haldin í göngufæri við verslanir og veitingastaði sem geta fyllt tóma maga með ýmsu góðgæti.

Hvað ef mig vantar húfur eða boli eða óvaranlegt húðflúr á Aldrei í ár?

Besta spurning allra tíma!

Við höfum alltaf verið með úrvals varning merktan Aldrei fór ég suður til sölu í gegnum tíðina. Við opnum verslun með varningi á Austurvegi 2 (kort) á Ísafirði 8. apríl og svo verður varningur líka seldur í skúr við skemmuna.

Það er óumflýanleg staðreynd að öll sem klæðast fötum merktum Aldrei, ganga með skartgripi merktum Aldrei eða skreyta sig með óvaranlegu húðflúri merktu Aldrei eru mest töff í heimi því þau styðja hátíðina í verki og eru flottust.


Rokkstjórinn

Sendið rokkstjóranum skeyti á rokkstjori@aldrei.is.