VELKOMIN Á ALDREI FÓR ÉG SUÐUR

Heyrst hefur að allir og amma þeirra allir sé á leiðinni vestur um páskana og gera má ráð fyrir töluverðum fjölda á rokkhátíð alþýðunnar. Aldrei-gestir eru eins ólíkir og þeir eru margir og sumir þeirra hafa aldrei upplifað þá snilld sem er að rokka í rækjuverksmiðju Kampa við Aldrei-fór-ég-suður-götu.

En hverju mega nýju rokkgestirnir búast við? Fyrst og fremst stuði og ógleymanlegri stemmningu!

Hér eru að auki nokkur lykilatriði sem gott er að hafa í huga, bæði fyrir þau sem eru að koma í fyrsta sinn sem og þau sem eru með 20 ára mætingarreynslu:

  • Í fyrsta lagi – munið eftir að taka góða skapið með. Mjög mikilvægt vegarnesti á hátíðina er sólskinsbrosið og stemmarinn. Umburðarlyndið er líka kærkomið þar sem oft getur verið talsvert um troðning í mannþvögunni.

  • Í öðru lagi klæðið ykkur eftir aðstæðum. Það er ekki bara biluð stemmning og mannfjöldi inni í skemmunni heldur líka fyrir utan. Gott er að hafa í huga að það getur verið kalt úti en mjög hlýtt inni í þvögunni. Dansskórnir eru best geymdir heima og betra að vera í lopapeysu en glimmergallanum. Ekki þarf þó að örvænta ef eitthvað gleymist því hægt er að kaupa Aldrei-varning til styrktar hátíðinni eins og húfur og peysur sem eru bæði hlý og töff. Það hjálpar einnig hátíðinni þar sem enginn er aðgangseyririnn. Þau sem vilja vera extra flott á því, eða þurfa kannski ekki fleiri húfur í bili, geta splæst í Aldrei-passann og stutt þannig við hátíðina.

  • Best er að mæta sem allra fyrst. Mathöllin opnar kl. 18 föstudaginn langa en þar má fá alls kyns góðgæti til að svala þorsta og fylla tóma maga. Forseti vor Guðni Th. Jóhannesson mun setja hátíðina kl. 19. Búast má því við brjáluðu stuði frá upphafi til enda hátíðarinnar.

  • Langbest er að rölta í skemmuna – og njóta þess hversu fallegur bær Ísafjörður er. Skemman er aðeins um tíu mínútna fjarlægð frá miðbænum ef gengið er rösklega.

  • Hafa þarf í huga að hátíðin er fyrir alla aldurshópa – sýnum því virðingu og rokkum saman í sátt og samlyndi. Í sameiningu virðum við útivistartíma barna. Börn yngri en 13 ára eru eingöngu á hátíðinni í fylgd með fullorðnum og sama gildir um börn yngri en 18 ára eftir kl. 22 þar sem áfengissala er á svæðinu.

  • Við sem störfum að hátíðinni erum sjálfboðaliðar og fjáröflun á svæðinu snýr eingöngu að hátíðinni og uppgangi hennar. Það besta sem gestir geta gert til að styðja hátíðina er að skemmta sér fallega og gleðjast með öllum á svæðinu.

Nánari upplýsingar er svo að finna á upplýsingasíðunni okkar.

Takk fyrir og góða skemmtun!

Previous
Previous

ÖLL UM BORÐ!

Next
Next

SÖGUSÝNING Í NEÐSTAKAUPSTAÐ