JAFNALDRAR ALDREI LEYSA FRÁ SKJÓÐUNNI
Eins og alþjóð veit er Aldrei-hátíðin tuttugu ára í ár en hún var fyrst haldin árið 2004. Í tilefni stórafmælisins tókum við hús á tveimur ísfirskum jafnöldrum hátíðarinnar um það hversu gaman það er að eiga sama afmælisár og Aldrei.
Þessi glæsilegu ísfirsku ungmenni tóku einmitt að sér að aðstoða okkur við að kynna hljómsveitir ársins í Turnhúsinu þann 1. mars síðastliðinn.
Sóttu fyrstu hátíðina í móðurkviði
Sigrún Aðalheiður Aradóttir á afmæli 14. september og Stefán Freyr Jónsson þann 13. júní.
Hver er ykkar fyrsta minning af Aldrei-hátíðinni?
„Ég man nú ekki eftir því en ég var í móðurkviði á fyrstu hátíðinni og það var geggjað partý,“ segir Sigrún.
„Fyrsta minningin mín af Aldrei er þegar pabbi tók mig alltaf á háhest svo ég gæti séð sviðið þegar ég var lítill. Það er synd að hann geti það ekki lengur, segir Stefán Freyr.
Aðspurð segjast þau bæði að sjálfsögðu ætla að mæta á Aldrei í ár, eins og öll önnur ár.
„Ég er fastagestur á hátíðinni og það mun ekki hætta,“ segir Stefán og bætir við: „Hver ætlar ekki á Aldrei í ár, það er frekar spurningin.“
Skemmtilegast að allir geti skemmt sér saman
Sigrún og Stefán segja bæði að það besta við Aldrei sé að skemmta sér með vinum og fjölskyldu.
„Ég er spenntastur fyrir stemmingunni með vinum mínum og fíflast með þeim,“ segir Stefán.
„Stemningin er náttúrulega rosaleg enda er 2004 stemmnings-ár og mér finnst geggjað að allir geta skemmt sér saman“ segir Sigrún. „Mér finnst bara allt skemmtilegt við þetta… og rosalegt lænöpp í ár!“
Eitthvað að lokum?...
„Ekkert sérstakt sem ég vill segja meira nema bara segja við fólk að mæta um helgina því það verður truflað gaman á þessari afmælishátíð,“ segir Stefán og Sigrún tekur undir það: „Og skemmtið ykkur fallega ❤“