Með Sælu í hönd og sól í hjarta

Tvær goðsagnakenndar hljómsveitir stíga aftur á svið á Aldrei í ár en svo skemmtilega vill til að báðar hljómsveitirnar eru að koma saman aftur eftir smá hlé. Það eru engar aðrar en Írafár og Reykjavík!
Aldrei.is fannst því tilvalið að taka púlsinn á Birgittu Haukdal, söngkonu Írafárs, og Hauki Magnússyni, gítarleikarann í Reykjavík! um hversu gaman það væri að spila á hátíðinni.

Hversu næs er það að koma aftur saman? Er þetta búið að vera langt hlé hjá ykkur?

Birgitta: „Írafár kom aftur árið 2018 með tónleikum í Eldborg og höfum síðan tekið einstaka gigg á stórum hátíðum eins og þjóðhátíð, Brennslunni og Kótelettunni.“

Haukur: „Heyrðu já sko þetta er margslungin spurning. Við spiluðum í júlí á síðasta ári, á svanasöng LUNGA hátíðarinnar á Seyðisfirði, hvar við gerðum garðinn frægan á núllunni (00s). Staðarhöldurum þótti við víst hafa markað stemningu þeirrar hátíðar á afgerandi máta og því þótti viðeigandi að fá okkur til að fylgja henni til grafar, svona síðustu metrana. Var fáránlega mikið stuð og gott gaman. Sú framkoma gildir eiginlega ekki, því Seyðisfjörður er svo langt í burtu. „Það sem gerist á Seyðisfirði…“ og allt það. Svo spiluðum við fyrir tæpum mánuði síðan, á sveittu Kaffibarsgiggi í miðbæ Reykjavíkur. Það var okkar formlega æfing fyrir Aldrei-hátíðina og var ótrúlega gaman. Lofaði góðu! En gildir að sjálfsögðu ekki, því Kaffibarinn er ekki eiginlegur tónleikastaður. Því er mér ljúft að tilkynna að framkoma okkar á Aldrei fór ég suður 2025 er í fyrsta skipti sem hljómsveitin Reykjavík! kemur saman og spilar á tónleikum í heilan áratug! Alveg síðan við spiluðum síðast saman, á haustdögum ársins 2015, á leynitónleikum á Airwaves hátíðinni. En þeir gilda eiginlega ekki heldur, því þeir voru leyni. Og á Kaffibarnum. Ætli þetta séu ekki bara fyrstu tónleikarnir okkar?!? Ég held það barasta!“

Hversu spennt eruð þið að spila í Aldrei-skemmunni?

Haukur: „Halló! Við erum fáránlega spenntir! Geiri er farinn að stunda innhverfa íhugun og kalda pottinn til þess að höndla stressið, þrír okkar hættu að drekka til að vera í sem bestu formi og svo eru eiginlega allir nema ég hættir að reykja, bara svo við getum tæklað þetta mikilvæga verkefni af þeirri alúð sem það krefst! Við verðum eins og Ivan Drago í Rocky IV. Aldrei fór ég suður hátíðin er auðvitað einhver glæstasta menningarstofnun landsins og að spila þar er ekki bara heiður á borð við Fálkaorðu eða Vestfirðing ársins hjá BB.is, það er líka ótrúlega skemmtilegt! Allt besta og hressasta fólk landsins mætt að hafa gaman saman úti á höfn á Ísafirði, með Sælu í hönd og sól í hjarta!?!?

Hvað gæti verið betra!?! Takk Mugison! Fyrir að hafa skapað þetta allt! Þú ert laaaaaang bestur!“

Birgitta: „Við spiluðum á Aldrei fyrir 20 árum síðan og höfum oft rætt það að kíkja aftur þar sem Ísafjörður er í miklu uppáhaldi hjá hljómsveitarmeðlimum. Við komum oft og héldum böll í Hnífsdal og á Sjallanum hér áður og gestrisni heimamanna alltaf verið svo geggjuð og vel hugsað um okkur. Við tölum oft um geggjuðu pizzurnar sem við fengum á Pizza 67 (ostapizza með rifsberjahlaupi og fylltum osti í köntunum var oft tekin) eins góða matinn og gestrisnina á Húsinu. Ég eyddi næstum tveimur sumrum á Ísafirði sem unglingur og þykir ofsalega vænt um bæinn.“

Ég heyrði að þú Birgitta hafir eitt sinn unnið í Krílinu þegar þú bjóst á Ísafirði. Hver var uppáhalds Sælan þín! Eða varstu meiri Nonnapylsukona?

Birgitta: „Já, ég vann aðeins í Krílinu sem er án efa besta bílasjoppa landsins. Ég var ekki mikil Sælukona en meiri Nonnapylsumanneskja. Eins elskaði ég að fá mér túnfisksamloku og Kókómjólk. Túnfisksalatið hjá Settu og Nonna var auðvitað upp á 10. Siggi bassaleikari er frá Ísafirði og hann var duglegur að draga okkur vestur. Fjölskyldan hans hugsaði svo vel um okkur, því auðvitað urðum við veðurteppt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Já og ekki bara í sólahring.

Við erum spennt að koma vestur og hitta fólkið okkar og vini og munum kíkja líka til Bolungarvíkur þar sem við eigum heimboð hjá bæjarstjóranum þar fyrir tónleika.“

En þú ert þekktur sem Tjöruhúserfinginn Haukur – og hlýtur því að hafa smakkað alla rétti á matseðlinum. Hver finnst þér besti rétturinn? „Það er mjög breytilegt eftir árferði og lundarfari! Svo eru fiskarnir misgóðir eftir árstíma. Kolinn er alltaf classic, Steinbítur stendur fyrir sínu og gellur eru jafnan guðdómlegar. Um þessar mundir er ég hrifnastur af eiturferskum þorski í sítrónusmjöri með lauk, útfærslu pabba á uppskrift ömmu Erlu. Fæ vatn í munninn!“

Alltaf skemmtilegast að spila fyrir vestan!

Hvað er eftirminnilegast frá því að hafa spilað á Aldrei?

Haukur: „Sko við spiluðum fáránlega oft á hátíðinni í gamla daga. Fyrst árið 2005 ef ég man rétt. Það er allskonar eftirminnilegt. Offvenjú tónleikar í Edinborgarhúsinu og Krúsinni. Þegar við mönuðum Kela trommara í Agent Fresco til að crowdsurfa aftast í skemmuna og sækja pylsu með öllu (þá voru sælur ekki komnar). Og þegar Sverrir Örn Rafnsson fór á skeljarnar á miðju giggi hjá okkur og bað Dóru sína að giftast sér! Hvílík minninga-mergð! Maður tárast bara!“

Nú eruð Reykjavík! nýbúnir að spila í höfuðborginni – hversu miklu skemmtilegra er að spila fyrir vestan?

„Eins og ég sagði, þá gildir eiginlega ekki þegar maður spilar í Reykjavík! Auðvitað er alltaf skemmtilegast að spila fyrir vestan! The West is the Best, eins og Ronald Reagan sagði.“



Reykjavík! Bónorð á sviðinu í Aldrei-skemmunni þegar Reykjavík! spilaði 2012.


Reykjavík! Reykjavík! með skemmuna í vasanum 2012.


Írafár Birgitta á hátíðinni 2005.


Írafár Írafár á hátíðinni 2005.


Írafár Írafár