PÁSKARNIR EIGA ÁFRAM HEIMA Á ÍSAFIRÐI

Kristján Freyr rokkstjóri undirritaði í dag fyrir hönd Aldrei fór ég suður stuðsamning milli hátíðarinnar og Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2025-2027. Markmið samningsins er meðal annars að tryggja áframhaldandi stuð á páskum á Ísafirði og báðir samningsaðilar bjóði í sameingu upp á metnaðarfulla tónlistarhátíð þar sem gestir fái að njóta framúrskarandi íslenskrar tónlistar í einstöku umhverfi. Líkt og hingað til er sérstök áhersla lögð á að hátíðin kynni tónlistarfólk með tengsl við Ísafjarðarbæ.

Samkvæmt samningnum leggur Ísafjarðarbær Aldrei fór ég suður árlega til 10 m.kr. en fjármagnið kemur úr styrktarsjóði Hafna Ísafjarðarbæjar, sem settur var á fót árið 2024.

„Þetta er risastór viljayfirlýsing bæjaryfirvalda, og vonandi bæjarbúa einnig, sem undirstrikar þá staðreynd að páskarnir eiga áfram heima á Ísafirði,“ segir Kristján Freyr. „Þetta eru vissulega stórir peningar sem gera okkur kleift að standa að hátíðinni með sóma sem aldrei fyrr. Aldrei fór ég suður er ekki hagnaðardrifin hátíð að neinu leyti og mun þessi fjárhæð skila sér rakleiðis en í samfélagið hér vestra.“

„Eftir 20 ára afmælið á síðasta ári fannst okkur rétt að staldra aðeins við, nýta tímamótin til að átta okkur betur á því hvernig hátíðin gæti þróast og haldið áfram. Ein af niðurstöðum þeirrar naflaskoðunar var að við fundum að við þurftum að styrkja stoðirnar svo um munar til að sjá til þess að upplifun og öryggi allra sem að hátíðinni koma væri sem best.

Með þéttara samstarfi við Ísafjarðarbæ, góðum áframhaldandi stuðningi annarra bakhjarla hátíðarinnar og með aðstoð okkar stórkostlega sjálfboðahóps er okkur ekkert að vanbúnaði að halda áfram að bjóða upp á metnaðarfulla tónlistarhátíð í heimabæ páskanna.“

Að sögn Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, er samfélagslegur ávinningur samningsins mikill.

„Aldrei fór ég suður er ekki bara tónlistarhátíð, heldur mikilvægur samfélagslegur viðburður sem styrkir menningarlíf, eflir samstöðu íbúa og laðar gesti til bæjarins,“ segir Sigríður. „Við erum stolt af því að styðja hátíðina áfram svo hún haldi áfram að blómstra og fylla bæinn af fjöri um páskana.“

Next
Next

TAKK FYRIR OKKUR 2024!