TAKK FYRIR OKKUR 2024!
Félagið Aldrei fór ég suður vill þakka öllum fyrir stórbrotna afmælishátíð síðustu páska. Þau öll sem fram komu á sviðinu, þau sem unnu baki brotnu að láta þetta verða að veruleika, þau sem styrktu og stóðu styrkum höndum að baki hátíðinni og þið öll sem komuð og skemmtuð ykkur með okkur - tuttuguþúsund þakkir!
Kampi, Ísafjarðarbær, Icelandair, Orkubú Vestfjarða, Landsbankinn, Kerecis, Eimskip, 66°Norður, Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Rás 2 og - takk fyrir að standa alltaf með okkur. Þið sem tókuð einnig slaginn með okkur í ár; Avis skutlaði okkur, Exton hljómjafnaði, Nettó sá um aðföngin, CCEP um drykkina, West Travel ferjaði popparana okkar, Sjálfstæðisfólk á Ísafirði lánaði skrifstofuna, Arctic Fish buffaði okkur upp, forseti Íslands blessaði allt saman og og og … svo gæti þessi listi verið endalaus. Maður gerir ekki rassgat einn!
Orðið á götunni er þrálátt, þetta var síðasta hátíðin!
En er það svo? Við sem stöndum að Aldrei fór ég suður bjuggum ekki þá sögu til og við vitum ekki hvort hátíðin í ár hafi verið sú síðasta. Við erum ekki dottin af baki, við erum fáránlega öflugur hópur! Hins vegar vitum við aldrei neitt nema ár í senn. Við getum brett upp ermar, híft upp sokkana og gert okkar besta í að tryggja eina hátíð í senn - en hvort það dugi? Ekkert er öruggt og ekkert tryggt, sérstaklega þegar kemur að blessuðu peningunum.
Við erum hins vegar alltaf bjartsýn, einmitt þess vegna fögnuðum við 20 ára afmæli í ár.
Annars eru allar góðar hugmyndir vel þegnar - sem og góðir straumar.
TAKK!