UPPFÆRT ALDREI
Eins og glöggt má sjá hefur merki og grafískt útlit Aldrei fór ég suður tekið nokkrum breytingum, auk þess sem vefsíða Aldrei hefur verið sett í nýjan búning.
„Eftir 20 ára afmælið í fyrra langaði okkur að taka smá snúning á sjómanninum síkáta, sem hefur fylgt okkur frá upphafi, auk þess að fá skýrari grafíska stefnu fyrir allt efni sem hátíðin sendir frá sér,“ segir Kristján Freyr rokkstjóri. „Hönnunarvinnan var leidd af honum Adda, Arnari Geir Ómarssyni, en hann hefur í rauninni fylgt Aldrei fór ég suður frá fyrstu hátíð og komið fram ótal sinnum, til dæmis með hljómsveitunum Rass og HAM. Svo skemmtilega vill til að hann er einmitt að fara að tromma með einni af hljómsveitum ársins, Apparat Organ Quartet,“ segir Kristján. „Við fengum einnig ómetanlega aðstoð við að endurhanna vefinn okkar frá Ísfirðingnum og vefhönnuðinum Diego Ragnari Angemi. Ljúfmennin í Snerpu, sem hafa alla tíð verið okkur innan handar í öllu vefstússi, voru svo eldsnöggir að tengja nýja vefinn svo við gætum kynnt lænöpp ársins á nýja vefnum.“