AÐ ALAST UPP MEÐ ALDREI: HÁTÍÐIN HEFUR ALLTAF VERIÐ KÚL

„Ég get ekki ímyndað mer Ísafjörð án Aldrei fór ég suður. Það er svo stór hluti af menningunni í bænum og páskunum okkar,“ segir Rebekka Skarphéðinsdóttir, ísfirskur Aldrei-gestur sem hefur nánast alist upp með hátíðinni en hún var aðeins eins og hálfs árs þegar sú fyrsta var haldin í apríl 2004. „Stór hluti af páskunum á Ísafirði er líka auðvitað Skíðavikan, en ég kem ekki úr skíðafjölskyldu, og kann ekki sjálf á skíði. Þannig að páskarnir fyrir mér eru aðallega Aldrei. Ég vil líka alltaf vera heima um páskana. Meira að segja þegar ég flutti út til Danmerkur í eitt ár ákvað ég að koma heim um páskana, frekar en jólin, meðal annars til að mæta á hátíðina.“

Rebekka með Lindu, mömmu sinni, á hátíðinni árið 2007.

Rebekka hefur mætt á hátíðina alveg síðan hún man eftir sér og er Aldrei hápunktur páskanna á Ísafirði að hennar mati. En hver er hennar allra fyrsta minning af hátíðinni. „Er með sterka minningu frá 2006, þá þriggja ára, að hafa verið í Edinborgarhúsinu sem var svo lengi kallað „Rokkhúsið“ hjá mér og fjölskyldunni. Blikkandi ljós, mikill hávaði, ekki búið að klára að smíða, og svaka stuð.“ Þá bætir hún við að hún muni vel eftir því að sitja á háhest svo hún sæi yfir allan fjöldann syngjandi saman.

En hvernig er að alast upp með Aldrei – er hátíðin alltaf kúl eða verður hún eins og margt annað hallærislegt á unglingsárunum? „Að mínu mati hefur Aldrei alltaf verið kúl. Ég er oftast fyrst í fjölskyldunni til að mæta á staðinn. Kannski á gelgjunni varð meira kúl að mæta með vinum sínum, fá að vera sjálf. Til dæmis var svaka sport að fara með vinum sínum og troða sér alveg fremst upp við sviðið. En það er líka það sem er svo frábært við hátíðina, þetta er hátíð fyrir alla fjölskylduna, tónlistin er fjölbreytt og alltaf eitthvað sem hentar öllum.“

Rokkið hefur alltaf verið sterkt í Rebekku – bæði uppeldi hennar og Aldrei stuðluðu að því. „Ég var alltaf að rokka þegar ég var lítil, og er alin upp við mikla tónlist. Oft eru lítil börn spurð „hvað ertu stór?“ eða „hvað ertu sterk?“ en ég var spurð „Rebekka, hvernig á að rokka?“ og þá stakk ég tungunni út og gerði rokktáknið eins og sést á myndinni.

Mæðgurnar á Aldrei nokkrum árum eftir að efri myndin var tekin (t.v.) og Rebekka í stórglæsilegum rokkbol (t.v.).

Rebekka telur Aldrei afar mikilvæga fyrir brottflutta Ísfirðinga til að halda tengslum við heimabæinn. „Hátíðin snýst ekki bara um tónleikana heldur líka félagsskapinn. Það er svo gaman að mæta á hátíðina, hitta gamla vini, kynnast nýju fólki og endurnýja kynni.

Líka svo gaman að fólk sem hefur litla sem enga tengingu við Ísafjörð gerir sér ferð hingað til að mæta á hátíðina.

Mér finnst líka alveg frábært að hægt sé að halda hátíðina ókeypis. Það hvetur fólk til að mæta og því fleiri sem mæta því skemmtilegra!“

 Aðspurð segist Rebekka að sjálfsögðu mæta í ár. „Það er ekkert annað í boði! Ég fæ líka páskagest alla leið frá Danmörku sem fær að upplifa Aldrei-stemminguna í fyrsta sinn. Ég hlakka mikið til.“

Eitthvað að lokum? „Hvet öll að styrkja búðina og sjoppuna á staðnum, og auðvitað bara að mæta!

Maður gerir ekki rassgat einn!“

Þess má geta að Rebekka er með burtfarartónleika frá Tónlistarskóla Ísafjarðar á morgun, laugardaginn 1. apríl.

Previous
Previous

ALDREI-PASSINN

Next
Next

HÚFUR, HÚFUR, HÚFUR!