SPJALLAÐ VIÐ OFURAÐDÁANDA: „ALDREI ER ALLTAF VEISLA“

Við erum auðvitað öll æsispennt fyrir að sjá tónlistarfólkið á sviðinu í Kampaskemmunni um páskana en eins og aðrar tónlistarhátíðir væri Aldrei fór ég suður ekki neitt án aðdáenda sinna. Einn af þeim er tónlistarspekúlantinn Guðmundur Heiðar Gunnarsson, af mörgum betur þekktur sem Herra Hammond. Hann hefur mætt á hverja einustu hátíð frá upphafi og óhætt að kalla hann ofuraðdáanda af bestu sort.

Gummi á Aldrei fór ég suður árið 2017. Eins og sjá má er hann duglegur að splæsa í varning hátíðarinnar.

„Ég sleppti einu sinni að mæta á föstudagskvöldinu þegar hátíðinni var breytt í tveggja daga dagskrá. Því í byrjun var hún aðeins haldin á föstudeginum langa,“ segir Gummi en þrátt fyrir að hafa ekki mætt á svæðið missti hann ekki af neinu. „Þá kom eitthvað tökulið á hátíðina sem þá haldin í Grænagarði og setti upp nokkrar myndavélar. Mig minnir að tökurnar hafi verið gerðar í tengslum við Inspired by Iceland. Og þetta kom svo flott út að það var bara eins og að horfa á flottustu tónleika í þaulskipulagðri sjónvarpsútsendingu, en þetta var sýnt á netinu. Ég var heima með slatta af liði að fá okkur í glas og við horfðum á alla tónleikana í gegnum netið. Þeir skiptu um myndavélar eftir besta sjónarhorninu hverju sinni og það kom svo geggjað vel út að maður gat notið alveg jafnvel heima í stofu. En fyrir utan það hef ég alltaf mætt.“

Hvað finnst ofuraðdáandanum um lænöppið í ár?

„Mér finnst það drulluflott. Ég held að þetta verði flott hátíð eins og vanalega. Það eru samt nokkur nöfn þarna sem ég þekkti ekki. En ætli maður sé ekki spenntastur að sjá söngkonu sem mun mæta þarna með hljómsveit og spila sín vinsælustu lög, Ragnhildi Gísladóttur. Ég hlakka allavega ekkert smá til að sjá það. Hún er alveg rosalega flottur tónlistarmaður.

Vintage Caravan og Siggi Björns eru alltaf flott. Ég þekki sjálfur ekki Kvikindi, Unu Torfa eða Russian.Girls en heyrt góða hluti og alltaf spenntur að sjá eitthvað nýtt.“

Hvert er stærsta nafnið sem spilað hefur á hátíðinni?

„Ja, það er nú erfitt að segja. Ætli það sé ekki bara Bubbi sjálfur Morthens, hann er risastór! Hann mætti með hljómsveit og djöfull var það frábært show. Það eru nú komin fjöldamörg ár síðan. Svo var líka geggjað þegar KK-bandið kom saman í Kampa-skemmunni.“

Hvert er eftirminnilegasta atvikið sem gerst hefur á hátíðinni að þínu mati?

„Það er erfitt að velja eitthvað eitt sérstakt. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er þegar ég var í bjórtjaldinu, mjög spenntur að bíða eftir því að uppáhaldshljómsveitin mín Ensími stigi á svið. Svo heyrði ég fyrsta lagið byrja og ég hélt hreinlega að ég yrði ekki eldri. Mikið rosalega voru þau geggjuð. Það stendur alveg upp úr hvað það var gaman að sjá þau.

Ég man líka þegar Risaeðlan kom saman á ný eingöngu til þess að spila á Aldrei um páskana 2016. Mér fannst það alveg geggjað og tróð mér alveg fremst við sviðið. Ég held að þau hafi ekki komið saman aftur eftir það.

HAM hefur líka spilað á hátíðinni, að ég held tvisvar meira að segja! Allavega þegar hátíðin var haldin í Edinborgarhúsinu.

Annars er erfitt að sigta út eitthvað eitt sem stendur upp úr hjá mér. Aldrei er alltaf veisla.“

Aldrei besta tónlistarhátíðin

Gummi segist handviss um að Aldrei sé besta tónlistarhátíðin á Íslandi. Það að hann hafi reyndar aldrei mætt á neina aðra hátíð dregur ekkert úr þeirri staðreynd.

„Ég hef aldrei farið á Airwaves til dæmis og aldrei austur á Eistnaflug þó ég trúi vel að það sé gaman. En Aldrei fór ég suður er samt sem áður best, engin spurning! Það er bara svo gaman að koma saman og hlusta á alls konar tónlist. Það er alltaf eitthvað fyrir alla á hátíðinni.

Aldrei er líka haldin um páskana þegar það er ekkert endilega gott veður, og hún bara haldin samt. Ekkert verið að bíða eftir miðju sumri og sól heldur bara hent í frábæra hátíð um vetur. Þá er auðvitað líka Skíðavikan og líf og fjör hvort eð er á Ísafirði en Aldrei gerir allt betra.

Ég man þegar hátíðin var í Grænagarði að það riðlaðist lænöppið því ein hljómsveitin var enn á leiðinni þegar hún átti að stíga á svið. Minnir að það hafi verið Hjálmar sem bættu upp fyrir að hafa mætt of seint með því að halda dansiball í Krúsinni eftir hátíðina. Þetta hefur verið fyrir 2016 því hátíðin hefur verið í Kampaskemmunni síðan þá.
En annars kemur veðrið nú ekkert að sök þannig séð. Svo lengi sem það er ekki hífandi rok og ofankoma þá má alveg vera kalt. Maður klæðir sig bara vel og svo er alltaf hlýtt í skemmunni.“

Það er ekki bara veðrið sem taka þarf í reikninginn er kemur að hátíðarhaldi eins og Aldrei. Gummi minnist þess að heimsfaraldurinn sem enginn nennir lengur að nefna á nafn setti strik í reikninginn.

„Árið 2020 var hátíðin einungis sýnd í gegnum sjónvarpið. Það var mjög sniðugt hjá aðstandendunum. Bara að gera það besta úr hlutunum. En 2021 féll hátíðin alveg niður, í eina skiptið á sínum ferli. Ég heyrði það hefði verið búið að skipuleggja hátíðina og allar hljómsveitir tilbúnar að koma. Svo bara rétt fyrir páska var öllu skellt í lás. Og þá var bara alltof seint að grípa í eitthvað plan B. En fyrir vikið var extra gaman á hátíðinni í fyrra því maður hafði svo saknað þess að mæta á hátíðarsvæðið árin tvö á undan og upplifa eðal-tónlist við dúndur-stemmara.“

Previous
Previous

HÚFUR, HÚFUR, HÚFUR!

Next
Next

HITAÐU UPP FYRIR ALDREI